Um verkefnið

Íslenskur titill rannsóknarverkefnisins er Aðdráttarafl arfleifðar og staðartengsl í borgarlandslagi. Verkefnið er styrkt af Rannsóknarsjóði Íslands til þriggja ára (2022-2024) og vistað í Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.

Markmið verkefnisins er að leggja til skilnings á því hvernig fólk gefur sögulegum þáttum borgarlandslags merkingu og gildi og greina þátt tilfinninga og skynjunar í umgengni fólks og tengslum við staði fortíðar.

„Ásóttir staðir eru þeir einu sem fólk fær þrifist á“, skrifaði heimspekingurinn Michel de Certeau og átti við að staðir minja og minninga beri með sér lífsnæringu sem fólki í samtímanum er nauðsynleg. Rölt eftir götu í heimabæ getur fóstrað tilfinningu um að tilheyra og heimsókn á æskuslóðir getur vakið minningar og ljúfsárar kenndir. En hvers vegna og með hvaða hætti skipta slíkir staðir sem bera fortíðina í sér máli fyrir fólk?

Vettvangur rannsóknarinnar er Kvosin í Reykjavík og nágrenni hennar en markmiðið er að kryfja samband fólks við „ásótta staði“ miðbæjarins, staði sem fela í sér efnislega sögu borgarinnar og eru svið daglegs amsturs þeirra sem þangað leita. Ætlunin er að skýra hvernig fólk gefur sögulegu landslagi borgarinnar gildi og merkingu og greina hvernig hrif og tilfinningar móta samband fólks og staða fortíðar.

Í rannsókninni er brugðist við kalli um að kafa undir yfirborð hins skilvitlega og orðræðubundna og nálgast heildstæðan skilning á aðdráttarafli arfleifðarinnar og skynrænum tengslum fólks við hana.

Fræðilega sækir verkefnið til vaxandi kröfu innan gagnrýninna menningarfsfræða um að taka tillit til skynjunar og hrifa. Með það að leiðarljósi er leitað í brunn rannsókna á staðartengslum sem beint hafa sjónum að hrifum og tilfinningum til staða. Í þessu byggir rannsóknin á margreyndri eigindlegri aðferðafræði og framsæknum sjónrænum aðferðum til að greina og auka skilning á skynrænu sambandi fólks og staða fortíðar í borgarlandslaginu.

Verkefninu er stýrt af dr. Ólafi Rastrick, prófessor í þjóðfræði.

Hægt er að ná í Ólaf í síma 525-4485  eða með því að senda tölvupóst til rannsóknarteymisins með því að smella hér. Einnig má senda skilaboð beint af þessum vef, hér.

„Ásóttir staðir
eru þeir einu
sem fólk fær þrifist á“